VELKOMIN

Framfarafélag Flateyjar

Framfarafélag Flateyjar er félagsskapur eigenda eða forráðamanna húseigna eða lóða í Flatey á Breiðafirði. Félagar eru allir þeir sem eru eigendur eða forráðamenn húseigna og lóða í eyjunni og/eða fulltrúar þeirra ef svo ber undir, s.s. maki og skyldmenni í beinan legg eða makar skyldmenna.

Fréttir

Myndbönd frá Flatey

Húsin í Flatey

Loka

Vertshús (Veitingahús, Hótel Flatey)

Eigandi: Karl Gunnarsson og Ása Helga Ragnarsdóttir Um húsið: Byggt árið 1886 og var hönnuður Magnús vert Magnússon veitingamanni og snikkara. Hann flutti út í Flatey 1876 og tveimur árum síðar kvæntist hann Þorbjörgu Ólafsdóttur. Magnús stundaði smíðar í Flatey og víðar og byggði m.a. Hagakirkju á Barðaströnd . Hjá honum lærðu margir smíðar og var einn þeirra Bogi Guðmundsson smiður og kaupmaður. Magnús rak veitingasölu með konu sinni til 1933 auk þess að stunda búskap og sjósókn, einkum hákarlaveiðar. Eftir að Magnús lést keypti Bogi Guðmundsson í Bogabúð húsið og rak veitingasöluna í nokkur ár með konu sinni. Seldi hann síðar Guðmundi Zakaríassyni húsið og var rekin veitingasala í húsinu um árabil. Bogi hélt eftir viðbyggingu við austurgafl hússins og byggði ofan á hana eina hæð. (Sjá Vertshús austur-endi). Ólafur Jónsson kaupir 1966 húsið af Guðmundi.
Loka

46. Gripahús, Flatey II

Eigandi: Svanhildur Jónsdóttir Um húsið: Byggt sem gripahús um 1906 af Magnúsi Sæbjörnssyni (1871-1924) lækni sem var læknir í Flateyjarhéraði 1903 til 1923. Magnús keypti 10 hundruð í Flatey árið 1905 af séra Lárusi Benediktssyni (1841-1920). Íbúðarhúsið sem fylgdi þeim jarðarkaupum var nefnt Læknishús af setu hans þar. Núverandi fjárhús Krákuvarar.
Loka

Krákuvör

Eigandi: Svanhildur Jónsdóttir Um húsið: Byggt 1970 af Jóhannesi Gíslasyni úr Skáleyjum og þáverandi konu hans, Svanhildi Jónsdóttir sem nú er bóndi í Flatey og býr í Krákuvör ásamt Magnúsi Arnari Jónssyni. Helstu smiðir af húsinu eru þeir bræður Jóhannesar, Ólafur og Eysteinn Gíslasynir ásamt Birni Guðmundssyni.
Loka

Flateyjarkirkja

Eigandi: Flateyjarsöfnuður Um húsið: Byggð 1926. Eftir margra ára deilur um staðsetningu hennar og yfirtöku safnaðar úr höndum bænda var henni fenginn staður á núverandi stað, Bókhúsaflöt þar sem eyjan rís hæst. Aðdrættir efnis hófust í ársbyrjun 1926 og er kirkjan vígð 19. desember 1926. Við vígslu kirkjunnar var frumflutt lag Sigvalda Kaldalóns (1881-1946) við ljóð Eggerts Ólafssonar náttúrufræðings úr Svefneyjum, Ísland ögrum skorið en Sigvaldi var læknir í Flatey 1926-1929 og bjó í Læknishúsi hinu eldra. Um jól sama ár var annað þekkt lag Sigvalda frumflutt í kirkjunni við ljóð Stefáns frá Hvítadal, Kirkjan ómar öll. Næsta kirkja á undan henni var timburkirkja er stóð í kirkjugarði miðjum og byggð 1861 í tíð Ólafs Sívertsen. Kirkja hefur verið í Flatey um aldir. Um nústandandi kirkjuhús hefur sitthvað verið skráð og er til bæði birt og óbirt. Látum nægja hér; Arkitekt var Guðjón Samúelsson og yfirsmiður Jónas Snæbjörnsson frá Hergilsey húsasmiður og kennari á Akureyri. Umbætur í málun innanhúss 1943 unnar af heimamönnum. Myndskreyting Baltasar 1965, endurunnin 1990 og lagfærð um aldamót og aftur 2013. Mikill fróðleikur í óvaranleik skreytingarinnar. Mikil viðgerð innanhús 1990-1996 er Minjavernd stjórnaði og vann að. Kirkjan var endurvígð 1996 af Ólafi Skúlasyni biskup. Safnaðarformaður lengst af eða 1926–1964 var Steinn Ágúst Jónsson, Eyjólfshúsi. 1964 –2010 Jóhannes Geir Gíslason Skáleyjum. Sóknarprestur nú er sr. Elína Hrund Kristjánsdóttir, Reykhólum. Kirkjustjórn nú: Gunnar Sveinsson, Eyjólfshúsi, Svanhildur Jónsdóttir, Krákuvör og Guðrún Marta Ársælsdóttir, Byggðarenda. Það var 400 manna söfnuður sem byggði þessa kirkju á sínum tíma það er því afar erfitt að viðhalda sókn og sóknarkirkju þar sem lögmætur söfnuður er innan við tíu manns en með hjálp og velvilja fjölmargra velunnara Flateyjar hefur það tekist farsællega.
Loka

Straumur – Rarik

Eigandi: Starfsmannafélag RARIK Um húsið: Byggt 1983. Húsið er í eigu Starfsmannafélags Rafmagnsveitna ríkisins og leigt út til starfsmanna félagsins. Hús þetta þótti í upphafi vera stílbrot við markaða stefnu um útlit húsa í Flatey. 2011-2012 var húsið endurbyggt, allar innréttingar endurnýjaðar, húsið járnklætt og það fært í það horf sem fellur vel inn í húsamyndina í Flatey.
Loka

Sólheimar

Eigandi: Gerður Gestsdóttir Um húsið: Byggt 1935 af Gesti O. Gestssyni en hann var skólastjóri 1933-1960 með hléum. Húsasmiðameistari og yfirsmiður við Andakílsárvirkjun og skólahúss við Ljósafoss. Gestur O. er afi Oddnýjar, Gest Karls og Ragnars í Sólheimum. Byggt 1935 af Gesti Oddfinni Gestssyni kennara, skólastjóra og smið á háhólnum austan við Skansmýri, á svonefndum Myllumó en á þeim stað stóð áður vindmylla Guðmundar Schevings kaupmanns. Gestur fluttist til Flateyjar 1933 er hann tók við skólastjórastöðu í Flatey sem hann gengdi með hléum til 1959. Hann var húsasmíðameistari og var m.a. yfirsmiður við Andakílsárvirkjun og skólahúss við Ljósafoss. Kona Gests var Oddný Ingiríður Sölvadóttir fædd á Gafli í Svínavatnshreppi.
Loka

Bræðraminni

Eigandi: Félagið Bræðraminni í Flatey Um húsið: Byggt 1915 af sonum Kristjáns S. Jónssyni skipstjóra þeim Hermanni og Þorvarði. Kristján var skipstjóri í Flatey, bjó lengi í Snikkaraskemmu en keypti síðar austurenda Félagshúss með Hermanni bróður sínum. Bræðraminni var byggt á árunum 1915-1916 á lóð Snikkaraskemmu sem Björg Jörgensdóttir Moul (1864-1933) keypti af Guðjóni Ingimundarsyni, samkvæmt kaupsamningi dagsettum 4. nóvember 1912 og samkvæmt afsali 15. maí 1913 er hún réttur eigandi áðurnefndar Snikkaraskemmu ásamt lóð og öllu tilheyrandi, svo sem nefnt er í kaupsamningi. Tildrög þess að Björg kaupir Snikkaraskemmu eru eftirfarandi; Árið 1893 keyptu bræðurnir Hermann S. Jónsson og Kristján S. Jónsson (1864-1906) skipstjóri, Félagshús í Flatey. Hermann bjó í vestur endanum en Kristján í austur endanum í svonefndu Gunnlaugshúsi ásamt konu sinni, áður nefndri Björgu Jörgensdóttir en afi hennar, Jóhann Ludvig Moul hafði umsjón með því að reisa húsið. Eftir að Björg er orðin ekkja 1906 selur hún Gunnlaugi Sveinssyni skipstjóra húsið og ræðst í að kaupa „Snikkaraskemmuna“ og byggja Bræðraminni með sonum sínum Hermanni (1893-1921) og Þorvarði (1895-1954) með dyggri aðstoð mágs síns Hermann S. Jónssonar. Bræðraminni er byggt úr steinsteypu, steypt í áföngum með einni borðhæð í senn og raðað í grjót. Það er síðan múrhúðað á viðeigandi hátt. Bræðraminni er tveggja hæða hús með lágt risþak þar sem milligólf er úr timbri ásamt því að hluta af gólfi neðri hæðar er úr timbri. Húsið er T-laga að grunnformi. Árið 1988 voru settir í húsið nýir gluggar. Árið 1995 var húsið einangrað að utan með steinullarmottum og múrhúðað með „ímúr“. Í framhaldi er járn á þaki, rennur og þakskegg endurnýjað. Bjuggu þeir bræður með móður sinni í Bræðraminni, Hermann til dánardags 1921 og Björg til 1933. Eftir að Björg lést bjó Þorvarður í Bræðraminni með fjölskyldu sinni þar til hann lést 1954. Sigríður Kjartansdóttir kona hans bjó áfram í húsinu ásamt börnum þeirra en Sigríður flytur úr Flatey árið 1957 og stóð húsið að mestu leyti autt þar til fljótlega eftir 1960 þegar börn þeirra byrjuðu að lagfæra húsið. Í dag er húsið að mörgu leyti uppgert og eiga börn og afkomendur Þorvarðar Kristjánssonar og k. h. Sigríðar Kjartansdóttur húsið.
Loka

Alheimur

Eigandi: Guðjón, Margrét og Erla Sigurbergsbörn Um húsið: Húsið var byggt 1922 og var hönnuður Sigurður Jóhannsson. Árið 1838 byggði Ólafur Jónsson skipstjóri og beykir torfbæ á þessum stað og sem nefndur var Alheimur. Bergþór Einarsson sjómaður fékk Sigurð Jóhannsson til að smíða timburhús í stað torfbæjarins árið 1922 og bjó þar með konu sinni Ingibjörgu Jónsdóttur. Húsið var um tíma nefnt Berþórshvoll en nafnið Alheimur var tekið upp aftur. Eftir þau bjó þar Sveinbjörn Pétur Guðmundsson kennari og fræðimaður frá Skáleyjum. Sigurberg Bogason trésmiður og Kristín Guðjónsdóttir eignuðust húsið 1951 og bjuggu í því til 1957 þegar fluttu úr Flatey. Árið 2006 var húsið endurbyggt frá grunni og sett á það vatnsklæðning.
Loka

Vesturbúðir

Eigandi: Félagið Hergils ehf. Um húsið: Vesturbúðir er ævafornt býli í Flatey. Nefna má að Eggert Ólafsson (hinn betri) fæddur um 1730 ólst upp í Vesturbúðum. Vesturbúðir voru upprunalega fiskverkunarhús og þá var staðurinn stundum nefndur “Paradís” enda vinnustaðstaðan til fiskverkunar innanhúss og á þeim árum þótt eins og að vera kominn í Paradís. Breytt úr fiskverkunarhúsi í íbúðarhús 1938 af Óskari Nielssyni þegar hann flutti úr Svefneyjum. Óskar var frá Bjarneyjum en bjó síðar í Bíldsey en varð bóndi og hreppstjóri í Svefneyjum. Þegar Þórður Valgeir Benjamínsson flytur í Flatey úr Hergilsey 12. ágúst 1946 kaupir hann húsið og nefnir það Hergilsey en hann byggði við húsið og breikkaði til norðurs 1946. Þórður var síðasti bóndinn í Hergilsey en kona hans var Þorbjörg Sigurðardóttir. Þórður og Þorbjörg bjuggu í Vesturbúðum fram til 1966 er þau flytja í Stykkishólm yfir vetur en dvöldu sumarlangt í Flatey til að sinna hlunnindum Hergilseyjarlanda fram undir 1980. Þau hjónin áttu miklu barnaláni að fagna og eignuðust þau 16 börn áður en þau fluttu úr Hergilsey og náðu 14 þeirra fullorðinsaldri. Börn þeirra eru Valborg Elísabet, Sigurður, Dagbjört Guðríður, Björg Jóhanna, Auður, Benjamín, Guðmundur Sigurður, Ari Guðmundur, Sigríður Hrefna, Jóhannes, Guðbrandur, Ásta Sigrún, Ingunn, Gunnar, Gunnar Þórbergur og Sigurbjörg.
Loka

Vorsalir (Sölubúðin, Kaupfélagið)

Eigandi: Ingunn Jakobsdóttir Um húsið: Byggt 1885 og hönnuður ókunnur en ýmislegt bendir til að það hafi verið flutt tilsniðið til landsins. Húsið var byggt sem verslunar- og vörugeymsluhús og í því rak Björn Sigurðsson verslun ásamt dönskum kaupsýslumönnum sem stofnuðu með honum árið 1898 stórt útgerðar- og verslunarfyrirtæki, Islandsk Handel og Fiskeri Co. (IHF). Síðar tók Guðmundur Bergsteinsson í Ásgarði við húsinu og rak þar verslun uns Kaupfélag Flateyjar eignaðist húsið eftir að Guðmundur varð að draga úr umsvifum sínum 1922. Upphaflega var húsið kallað Sölubúðin en Kaupfélagið á meðan Kaupfélag Flateyjar rak verslun í húsinu um áratuga skeið fram til um 1958. Guðmundur Páll Ólafsson heitinn, náttúrufræðingur, rithöfundur og ljósmyndari eignaðist Vorsali 1973. Næsta áratug eða svo var unnið að viðgerð hússins og því breytt í íbúðarhús. Verslunarinnrétting á jarðhæð í vesturenda hússins hefur þó verið varðveitt að mestu og húsið heldur upprunalegu útliti.