VELKOMIN
Framfarafélag Flateyjar
Framfarafélag Flateyjar er félagsskapur eigenda eða forráðamanna húseigna eða lóða í Flatey á Breiðafirði. Félagar eru allir þeir sem eru eigendur eða forráðamenn húseigna og lóða í eyjunni og/eða fulltrúar þeirra ef svo ber undir, s.s. maki og skyldmenni í beinan legg eða makar skyldmenna.
Fréttir
Húsin í Flatey
Bogabúð
Um húsið:
Byggt af Boga Guðmundssyni kaupmanni árið 1908. Bogabúð er fyrsta steinhúsið í Flatey og byggt sem íbúðar- og verslunarhús og rak Bogi í húsinu verslun um langt árabil. Sagan segir að þegar Bogabúð var byggt voru aðeins notuð tvö 10 tommu borð við uppslátt þess. Bogi var mikill hagleiksmaður og trésmiður er skar mikið út s.s. rúm-fjalir og kistla, smíðaði líkkistur og vann að smíði m.a. Hagakirkju á Barðaströnd. Hægt er að sjá hagleiksverk hans á byggðasafninu að Hnjóti.
Byggt 1908-1910 af Boga Guðmundssyni (1877-1965) kaupmanni og smið en hann nam trésmíði hjá Magnúsi vert í Vertshúsi en húsið er fyrsta steinhúsið í Flatey. Bogi stundaði trésmíði framan af ævi m.a. við smíði Hagakirkju á Barðaströnd. Meðal smíðagripa hans eru kirkjugluggarnir í Flateyjarkirkju, skar út rúmfjalir og kistla sem víða fóru. Húsið var reist á grunni torfhúss er hét Svalbarði sem var verkstæði trésmiðs. Bogi fékk verslunarleyfi 1908 og hóf hann verslunarrekstur sinn í einu herbergi Bentshúss 1908. Hann rak síðan verslun í Bogabúð frá 1910-1962. Samhliða þessum verslunarrekstri í Bogabúð keypti hann Vertshúsið 1936 og rak þar veitingasölu ásamt konu sinni til ársins 1946. Kona Boga var Sigurborg Ólafsdóttir (1881-1952) fædd í Flatey. Þau hjónin áttu miklu barnaláni að fagna en börn þeirra voru Guðmundur (1903-1975), Ólína Guðrún (1904-1905), Ólafía (1905-1930), Jónína Sigríður (1907-2000), Yngvi (1909-1954), Lára (1910-1997), Sturla (1913-1994), Þórður (1915-1990), Kristín (1916-1943), Sigurberg (1918-2010) og Jón (1923-2009). Húsið var gert upp og endurbyggt upp úr 1980 en þá hafði húsið staðið autt í fjölmörg ár.
Herdísarhús (Gunnlaugshús)
Eigandi:
Valgerður og Þorsteinn Bergsbörn
Um húsið:
Herdísarhús (Gunnlaugshús) sem upphaflega var nefnt Nýjahús var reist af Brynjólfi Bogasyni Benedictsen (1807-1870) og konu hans Herdísi Guðmundsdóttir (Benedictsen) við lok fimmta áratug 19. aldar. Húsið er sambyggt austurgafli framhússins, sem var líklega byggt fyrir Guðmund Scheving Bjarnason. Brynjólfur tók við verslunarleyfi tengdaföðurs síns eftir lát hans. Hús þeirra hjóna er innflutt danskt kataloghús, líklega er það komið frá Jótlandi. Húsið þótti í upphafi reisulegast húsa á Vesturlandi og stofa þess bæði stærst og skrautlegust. Sérkenni í skreyti innanhúss, einkum loftflekar í stofu og samsetning þeirra geta bent til þess að þeir hafi fylgt húsinu. Ætlað er að þýskættaður beykir, Johann Ludvig Moul, hafi haft umsjón með því að reisa húsið. Eftir fráfall Brynjólfs 1870 flytur Herdís Benedictsen úr eynni.
Árið 1873 tók Verslunarfélag Eyjahrepps, nefnt Félagið við báðum húsunum og voru þau þá nefnd Félagshús. Félagið hafði rekstur í húsunum 1873 til 1888. Þá kaupa Hermann og Kristján Jónssynir bæði húsin og bjó Kristján í austurhlutanum. Gunnlaugur Sveinsson skipstjóri og kona hans Guðlaug Gunnlaugsdóttir eignast húsið 1906. Af síðari íbúum hússins má nefna Þórunni Gunnlaugsdóttir og m.h. Finnboga Guðmundsson, Svein Gunnlaugsson kennara og skólastjóra í Flatey, Ólaf Eirík Gunnlaugsson bónda og sjómann, Arnfinn Hansen vélstjóra og k.h. Björgu Ólafsdóttir Hansen og síðast Sigurberg Bogason trésmið og k.h. Kristínu Guðjónsdóttir.
Jónína Hermannsdóttir og Friðrik Salómonsson eignast húsið eftir 1955 eða síðar. Við fólksfækkun í eynni var húsið undir lokin nýtt sem geymsla fyrir verslun Hermanns Jónssonar sem Jónína dóttir hans rak eftir hans dag í fremra húsinu. Við lok þeirra afnota var húsið farið að láta mjög á sjá. Eigendur frá árinu 1975 eru Valgerður Bergsdóttir og m.h. Arnmundur S. Backmann (dáinn 1998) og Ingibjörg Á. Pétursdóttir og m.h. Þorsteinn Bergsson.
Straumur – Rarik
Eigandi:
Starfsmannafélag RARIK
Um húsið:
Byggt 1983. Húsið er í eigu Starfsmannafélags Rafmagnsveitna ríkisins og leigt út til starfsmanna félagsins. Hús þetta þótti í upphafi vera stílbrot við markaða stefnu um útlit húsa í Flatey. 2011-2012 var húsið endurbyggt, allar innréttingar endurnýjaðar, húsið járnklætt og það fært í það horf sem fellur vel inn í húsamyndina í Flatey.
Klausturhólar (Prófastshúsið)
Eigandi:
Afkomendur Sigurðar Jenssonar og Guðrúnu Sigurðardóttur þ.e.a.s. Sigurður og Oddný Sigríður, börn Jóns Sigurðssonar raffræðings.
Um húsið:
Húsið var reist árið 1899 af séra Sigurði Jenssyni og konu hans Guðrúnu Sigurðardóttir en húsið kom tilhöggvið frá Noregi. Sigurður var prestur Flateyinga í rúm fjörutíu ár (1880-1921) jafnframt prófastur Barðastrandaprófastdæmis 1881-1902, þingmaður Barðstrendinga 1886-1908, varaforseti efri deildar Alþingis 1899, amtráðsmaður 1901-1907, yfirskoðunarmaður landsreikninga 1895-1902 og póstafgreiðslumaður í Flatey 1914-1921. Sigurður var oddviti Flateyjarhrepps í mörg ár. Bókamaður var hann góður. Sigurður fékk lausn frá embætti 1921 og fluttist þá suður til Reykjavíkur þar sem hann lést árið 1924.
Jón Sigurður sonur Sigurðar og Guðrúnar var oddviti og stjórnarmaður í Kaupfélagi Flateyjar en hann og kona hans Sigríður Einarsdóttir (1892-1988) tóku við búinu á Klausturhólum 1921. Eftir andlát Jóns 1924 rak Sigríður búið áfram og var póst- og símstöðvarstjóri til 1954 en þá flutti hún til Bandaríkjanna og lést þar árið 1988.
Klausturhólar standa vestan við þann stað sem áður stóð Flateyjarklaustur sem reist var 1172 en flutt fáum árum síðar (1184) að Helgafelli í Helgafellssveit. Í túninu norðaustan við Klausturhóla er að finna Klaustursteininn sem í er klappaður kringlóttur bolli þar sem munkarnir geymdu vígt vatn og singdu sig með. Hafist var handa við endurbyggingu Klausturhólar um 1990 eftir að húsið hafði staðið autt frá miðjum sjötta tug síðustu aldar.
Vorsalir (Sölubúðin, Kaupfélagið)
Eigandi:
Ingunn Jakobsdóttir
Um húsið:
Byggt 1885 og hönnuður ókunnur en ýmislegt bendir til að það hafi verið flutt tilsniðið til landsins.
Húsið var byggt sem verslunar- og vörugeymsluhús og í því rak Björn Sigurðsson verslun ásamt dönskum kaupsýslumönnum sem stofnuðu með honum árið 1898 stórt útgerðar- og verslunarfyrirtæki, Islandsk Handel og Fiskeri Co. (IHF). Síðar tók Guðmundur Bergsteinsson í Ásgarði við húsinu og rak þar verslun uns Kaupfélag Flateyjar eignaðist húsið eftir að Guðmundur varð að draga úr umsvifum sínum 1922. Upphaflega var húsið kallað Sölubúðin en Kaupfélagið á meðan Kaupfélag Flateyjar rak verslun í húsinu um áratuga skeið fram til um 1958.
Guðmundur Páll Ólafsson heitinn, náttúrufræðingur, rithöfundur og ljósmyndari eignaðist Vorsali 1973. Næsta áratug eða svo var unnið að viðgerð hússins og því breytt í íbúðarhús. Verslunarinnrétting á jarðhæð í vesturenda hússins hefur þó verið varðveitt að mestu og húsið heldur upprunalegu útliti.
Sjávarslóð
Eigandi:
Hafþór Hafsteinsson
Um húsið:
Byggt 1994 af núverandi eiganda, Hafþóri Hafsteinssyni. Hafþór fæddur 1959 hefur verið einn af síðustu sjómönnum sem gert hafa út frá Flatey bæði á strandveiðar og grásleppuveiðar.
Pósthúsið
Eigandi:
Ólína Jónsdóttir
Um húsið:
Pósthúsinu var komið fyrir í ágætis vinnuskúr sem fluttur var til Flateyjar. Löngum var sagt að þetta væri ”minnsta pósthúsið á landinu” og var afar vinsælt meðal ferðamanna og eftirsóknarvert að fá kort sín og bréf stimpluð með Flateyjarstimpli. Ólína Jónsdóttir í Læknishúsi var póstmeistari en pósthúsið var lagt niður 2009. Húsið er í dag notað fyrir ferðamannagistingu að hætti bændagistingar.
Berg (Hafliðahús)
Eigandi:
Bjarni H. Sigurjónsson
Um húsið:
Byggt 1922 af Sigurbrandi Kristjáni Jónssyni sjómanni og verkamanni. Húsið var byggt skammt frá þeim stað sem Appolonehús stóð, hlaða sem byggð var úr skipsviðum Appolene sem brotnaði 1841 í Flateyjarhöfn en Brynjólfur Benedictsen kaupmaður notaði húsið fyrir eldiviðageymslu. Árið 1936 keyptu húsið þau Árni Jón Einarsson vélstjóri á flóabátnum Konráði og kona hans Guðbjörg Jónsdóttir. Árni var mikill hagleiksmaður og bátasmiður góður og smíðaði marga báta. Einnig gerði hann við vélar, allt frá stærstu bátavélum til smæstu úrverka. Börn þeirra hjóna eru Bergþóra, Anna Aðalheiður, Sigurjón, Hafliði Arnberg og Elísabet Matthildur.
Vertshús (Veitingahús, Hótel Flatey)
Eigandi:
Karl Gunnarsson og Ása Helga Ragnarsdóttir
Um húsið:
Byggt árið 1886 og var hönnuður Magnús vert Magnússon veitingamanni og snikkara. Hann flutti út í Flatey 1876 og tveimur árum síðar kvæntist hann Þorbjörgu Ólafsdóttur. Magnús stundaði smíðar í Flatey og víðar og byggði m.a. Hagakirkju á Barðaströnd . Hjá honum lærðu margir smíðar og var einn þeirra Bogi Guðmundsson smiður og kaupmaður. Magnús rak veitingasölu með konu sinni til 1933 auk þess að stunda búskap og sjósókn, einkum hákarlaveiðar.
Eftir að Magnús lést keypti Bogi Guðmundsson í Bogabúð húsið og rak veitingasöluna í nokkur ár með konu sinni. Seldi hann síðar Guðmundi Zakaríassyni húsið og var rekin veitingasala í húsinu um árabil. Bogi hélt eftir viðbyggingu við austurgafl hússins og byggði ofan á hana eina hæð.
(Sjá Vertshús austur-endi). Ólafur Jónsson kaupir 1966 húsið af Guðmundi.
Eyjólfshús (Oddahús, Tangahús, Pálshús)
Eigandi:
Steinn Ágúst, Hanna María og Katrín Baldvinsbörn ásamt Kristínu Ágústsdóttir.
Um húsið:
Byggt 1882 af Bárar-Ólafi Guðmundssyni og tengdasyni hans Eyjólfi Jóhannssyni kaupmanni sem íbúðar- og verslunarhús. Ólafur var löngum kenndur við bæinn Bár í Helgafellssveit en í Flatey bjó hann fyrst í Fjósakoti en síðar í Innstabæ en síðast í Eyjólfshúsi. Hann var annálaður hákarlasjómaður og oft kallaður “tröllið með barns-andlitið”. Bátur hans Gustur var þekkt aflafley. Tengdasonur Ólafs, Eyjólfur var kaupmaður og bóndi í Flatey en fæddur í Svefneyjum en hann var faðir Jónínu Eyjólfsdóttir sem var kona Guðmundar Bergsteinssonar í Ásgarði. Neðan við Eyjólfshús er Eyjólfsbryggja, áður aðal uppskipunarbryggja Flateyinga.
Byggt 1882 af Bárar-Ólafi Guðmundssyni og tengdasyni hans Eyjólfi Einar Jóhannssyni kaupmanni. Ólafur var löngum kenndur við bæinn Bár í Helgafellssveit en í Flatey bjó hann fyrst í Fjósakoti en síðar í Innstabæ en síðast í Eyjólfshúsi. Hann var annálaður hákarlasjómaður og var oft kallaður ”tröllið með barnsandlitið”. Bátur hans Gustur var þekkt aflafley. Tengdasonur Ólafs, Eyjólfur var kaupmaður og bóndi í Flatey en fæddur í Svefneyjum en hann var faðir Jónínu Eyjólfsdóttir sem var kona Guðmundar Bergsteinssonar í Ásgarði.
Eyjólfshús hefur gengið undir ýmsum nöfnum í gegnum tíðina s.s. Oddahús, Tangahús og Pálshús. Í fyrstu búa í Eyjólfshúsi fjölskyldur Bárar-Ólafs og dóttir hans Sigurborg ásamt tengdasyni hans Eyjólfur Einar Jóhannsson. 1903 Eignast Verslunarfélagið húsið og bjó Páll Andrés Sigurður Nikulásson (1864-1932) verslunarmaður og kona hans Björg Pétursdóttir (1875-1962) ljósmóðir í húsinu er þá nefnist Pálshús. 1914 kaupir Steinn Ágúst Jónsson (1879-1969) húsið ásamt konu sinni Katrínu Þórðardóttir (1886-1966) og bjuggju þau í Eyjólfshúsi í meira en fimmtíu ár. Steinn Ágúst var alla tíð mjög áberandi í félags-, atvinnu-, trúar- og menningarlífi Flateyjar. Verslunarmaður í byrjun komu sinnar til Flateyjar (1909) hjá Guðna kaupmanni Guðmundssyni og síðar hjá Guðmundi Bergsteinssyni kaupmanni. Stofnaði fyrstu barnastúku í Flatey, formaður ungmennasambands Norður-Breiðfirðinga, kosinn í sóknarnefnd Flateyjar 1912 og hafði forgöngu um byggingu hinnar nýju Flateyjarkirkju 1926 og meðhjálpari kirkjunnar um tugi ára, gjaldkeri Sparisjóðs Flateyjar frá 1925 og hreppsnefndaroddviti frá 1945. Í Eyjólfshúsi bjuggi í gegnum tíðina fjölmargir s.s. Bjarni Ingibjartur Bjarnason (1882-1944) sjómaður og kona hans Guðrún Júlíanna Guðmundsdóttir (1873-1956), Halldór Friðriksson (1871-1946) skipstjóri og kona hans Anna Ragnheiður Erlendsdóttir (1878-1954), Halldór Kolbeins Eyjólfsson (1893-1964) prestur og kona hans Lára Ágústa Ólafsdóttir (1898-1973) og síðar Vigfús Sigurbjörn Stefánsson (1890-1970) bóndi og kona hans Ingibjörg Einarsdóttir (1889-1963). Neðan við Eyjólfshús er Eyjólfsbryggja sem var áður aðal uppskipunarbryggja Flateyinga en bryggjan var stækkuð og steypt upp um 1934.