Fuglalíf í Flatey er fjölskrúðugt og mergð fugla er mikil. Í Flatey eru ekki rottur, mýs eða minkur né heldur kettir. Það gerir það að verkum að fuglavarp, sérstaklega varp mófugla er þéttara þar en víðast annars staðar. Og líklega af sömu ástæðu er í Flatey, stærsta teistuvarp á landinu. Snuðrandi hundar hafa neikvæð áhrif á varp fugla. Á undanförnum árum hefur hundaeign aukist mjög meðal landsmanna og margir hafa hundana með í ferðalagið. Fjölskrúðugt fuglalíf er einn verðmætasti þáttur í náttúru Flateyjar. Því eiga menn að skilji hundana eftir í landi þegar þeir koma í Flatey til að njóta náttúrunnar og fuglalífsins.

Fuglanytjar voru snar þáttur í hlunninda-nytjum í Vestureyjum í Breiðafirði á árum áður, enda mikið fuglalíf í eyjunum. Umfangsmikil dúntekja, fuglaveiði og eggjatekja var stunduð í sátt við náttúruna. Á síðustu árum hefur dregið verulega úr, samfara fækkun fólks í eyjunum. Dúntekjan er þó enn stunduð í nokkrum mæli.

Fuglalíf Flateyjar er mjög vel þekkt, betur þekkt en annars staðar á landinu. Frá miðjum áttunda áratugnum hefur Ævar Petersen fuglafræðingur vakað yfir fuglalífinu. Hann dvaldi í eyjunni við fuglarannsóknir, fyrstu árin sumarlangt og síðan hefur hann og samstarfsfólk komið til rannsókna í lengri eða skemmri tíma á hverju ári.

Það er örlítið breytilegt hversu margar tegundir verpa í Flatey og næstu eyjum í kring, en um þessar mundir er talið að þær séu um 25 eða um þriðjungur af varpfuglum landsins. Algengustu varpfuglarnir eru kría, teista, toppskarfur (í Klofningi og Hrólfskletti) og æðarfugl, allar með meira en 100 pör í varpi.

Auk varpfugla eru margar aðrar tegundir sem hafa viðkomu í Flatey vor og haust, á ferð sinni til og frá varpstöðvunum.  Margæsir og rauðbrystingar eru mest áberandi. Báðar þessar tegundir stoppa í Flatey á leið til og frá varpstöðvum á Grænlandi og í Norður-Kanada. Sumar tegundir sjást meira og minna allt árið eins og t.d. fýll, hrafn, sendlingur, stokkönd og straumönd og nú á seinni árum einnig súla.

Þeir fuglar sem sækja fæðu sína út á sjó eru lang mest áberandi. Það eru tegundir eins og teista, rita, lundi, fýll, kría, skarfar, máfar og æðarfugl. Einnig eru fjörufuglar eða fuglar sem sækja stóran hluta af sinni fæðu í fjöruna algengir. Þeir sjást gjarnan þar í stórum hópum þegar lágsjávað er. Þetta eru vaðfuglar eins og tjaldur, sendlingur, tildra, lóuþræll, rauðbrystingur og sandlóa. Stórir sjófuglastofnar og fjörufuglamergðin stafar af því að Flatey er miðjum Breiðafirði, einu frjósamasta hafsvæði landsins.

Flesta fugla í Flatey er hægt að skoða á vesturhluta eyjunnar. En austurhluti hennar er friðað varpland fugla og þar er bannað að fara um á varptíma frá 15. maí til 20. júlí.

Karl Gunnarsson – maí 2015